Rakel Sölvadóttir, stofnandi Skema, fékk í dag UT verðlaun Ský 2014
en þetta er í fimmta sinn sem verðlaunin eru afhent.
Í rökstuðningi valnefndar segir að Rakel sé hugsjónamanneskja og frumkvöðull sem sýnt hafi hversu mikilvægt það sé að vera jákvæður og trúa á sjálfan sig og hugmyndir sínar.
„Ný nálgun og hugmyndafræði Rakelar hefur valdið straumhvörfum í fræðslu og áhuga allra aldurshópa á nýtingu upplýsingatækni. Aðferðafræðin sem er studd af rannsóknum á sviði sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði, hefur það markmið að kenna ungu fólki frá 6 ára aldri að forrita. Undirstöðuatriði aðferðafræðinnar byggja á jákvæðni, myndrænni framsetningu og notkun á þrívíðum forritunarumhverfum til að stíga fyrstu skrefin inn í heim tækninnar. Rakel hefur verið sérstaklega góð fyrirmynd fyrir ungar konur sem eru að stíga sín fyrstu skref í tækniheiminum eða stefna að því að afla sér menntunar á sviði tækni og/eða vísinda.“
Rakel stofnaði sprotafyrirtækið Skema árið 2011 og hefur það vaxið á ógnarhraða frá stofnun. Rakel er Bs í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og starfaði meðal annars hjá Mentis, Teris og Tryggingastofnun ríkisins áður en hún stofnaði Skema. Um mitt síðasta ár stofnaði Rakel fyrirtækið reKode Education í Bandaríkjunum, sem byggir á sömu hugmyndafræði og Skema og hefst kennsla þar í apríl næstkomandi.
Þá segir ennfremur í rökstuðningi valnefndar:
„Rakel hefur lagt ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð í störfum sínum og með því að auka þekkingu á tæknitengdum greinum er verið að svara kalli atvinnulífsins og samfélagsins í heild. Forbes valdi Skema sem eitt af tíu sprotafyrirækjum í heiminum sem talin eru líkleg til að ná miklum árangri á næstunni og var Rakel valin í hóp átta frambærilegustu kvennanna á tækniráðstefnunni SXSW í Bandaríkjunum 2013 af Women 2.0. “
Markmið Skema er að uppfæra menntun í takt við tækniþróun og býður fyrirtækið upp á námskeið fyrir börn frá 7 ára aldri í forritun. Jafnframt leggur Skema mikla áherslu á endurmenntun kennara og er því með námskeið ætluð kennurum í notkun upplýsingatækni í kennslu ásamt ráðgjöf við innleiðingu á notkun tækni og kennslu í forritun í almennt skólastarf.
Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem afhenti Rakel verðlaunin á UTmessunni sem nú stendur yfir í Hörpu.
UTmessan er opin almenningi á morgun, laugardag, frá kl. 10:00 – 17:00 en þar gefst fólki kostur á að sjá og upplifa strauma og stefnur og allt það nýjasta í upplýsingatæknigeiranum. Aðgangur er ókeypis og er dagskráin miðuð að öllum aldurshópum.