Framtíðin er marghátta: Nýjar leiðir í samskiptum manns og tölvu
Við stöndum frammi fyrir miklum breytingum á sviði í máltækni og hvernig samskipti manns og tölvu er háttað. Máltækni nútímans gefur okkur tæki til talgreiningar og -gervingar, textagreiningar og skrifta, en hvað tekur við? Framtíðin liggur í marghátta samskiptum þar sem vélar þurfa að skilja fleiri víddir mannlegra samskipta en áður. Við tjáum okkur ekki bara með orðum, heldur einnig með hreyfingum, svipbrigðum, hléum og áherslum. Leitað verður svara við spurningum eins og hvaða tækni þarf til að greina þessi flóknu merki og hvaða nýjar rannsóknir færa þessa framtíð nær?
Dæmi verða tekin innan heilbrigðisgeirans þar sem nýjar lausnir hjálpa heilbrigðisstarfsfólki við dagleg störf, greina samtöl og sjálfvirknivæða pappírsvinnu. Einnig sýndarverur og vélmenni, sem þurfa marghátta samskiptahæfni til að gagnast í margvíslegum mannlegum og ófyrirséðum aðstæðum.
Áhersla verður lögð á mikilvægi tækninnar fyrir íslenskuna og samfélagið – hvernig margháttasamskipti geta auðgað íslenska máltækni og haldið tungumálinu lifandi í ljósi tækniframfara.
Stefán Ólafsson
Stefán Ólafsson er lektor við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík og hefur í áratug unnið að rannsóknum á sviði máltækni, samskipta manns og tölvu, og heilbrigðisvísinda.