Opin gögn, opin menning: Um framtíð stafrænna hugvísinda
Varðveisla íslenskrar menningar í stafrænum heimi krefst samvinnu þvert á stofnanir við uppbyggingu stafrænna gagnagrunna. Hugvísindi og tækni þurfa að mætast til að gera menningararfinn aðgengilegan í stafrænu formi – bæði fyrir almenning og til rannsókna með nýjum tæknilausnum. Gögnin þurfa ekki aðeins að vera opin og aðgengileg, heldur þarf að tengja saman fjölbreytt gagnasöfn sem eru hýst hjá ólíkum aðilum, bæði innanlands og erlendis, og þróa lausnir til miðlunar og rannsókna.
Með vandaðri uppbyggingu tengdra gagnagrunna og nánu samstarfi stofnana og fyrirtækja um tæknilegar lausnir sem nýta sjálfvirkni og gervigreind er hægt að veita mun víðtækari aðgang að menningararfinum en áður og styðja við nýjar tegundir rannsókna og þróunar. Í erindinu verður fjallað um tækifærin sem felast í opnum aðgangi að stafrænum gögnum um listir, menningu og sögu, en líka um áskoranir sem við stöndum frammi fyrir til að gera þetta að veruleika.
Eiríkur Smári Sigurðarson
Eiríkur Smári, doktor í heimspeki frá Cambridgeháskóla, er rannsóknadósent við Hugvísindasvið Háskóla Ísland, þar sem hann hefur starfað sem rannsóknastjóri síðastliðin 15 ár. Frá 2020 hefur hann leitt uppbyggingu Miðstöðvar stafrænna hugvísinda og lista (MSHL), en hún samanstendur af fimmtán háskólum, stofnunum og söfnum sem fást við íslenska menningu og listir. MSHL hefur leitt þróun við uppbyggingu stafrænna innviða fyrir rannsóknir og miðlun á íslenskum menningararfi og listum.