Vélmenni, plasma og lasergeislar: þróun efnagreiningartækis fyrir fljótandi málma
Vélmenni sem skjóta lasergeislum, lýsandi eldhnettir og skammtafræði til að stjórna framleiðsluferlum í verksmiðjum.
Það hljómar e.t.v. eins og vísindaskáldskapur en er samt raunveruleiki hjá íslensku fyrirtæki, sem í um áratug hefur verið að þróa mælitæki sem framkvæma rauntíma efnagreiningar á bráðnu áli með því að skjóta öflugum laserpúlsum á fljótandi ál og greina litróf rafgassins sem myndast við það.
Efnagreining á áli með hefðbundnum aðferðum er handvirk og tímafrek. Innleiðing sjálfvirkrar rauntímaefnagreiningar í framleiðsluferli álvera myndi spara tíma, orku og peninga, en mælitæknin er flókin og umhverfisaðstæður í álverum eru gríðarlega krefjandi, bæði fyrir róbota og fyrir nákvæm mælitæki.
Í þessum fyrirlestri mun ég greina frá áskorununum sem fylgja því að þróa hug- og vélbúnað fyrir slíkar aðstæður og þá vegferð sem fyrirtækið hefur farið í gegnum til að auka áreiðanleika og skalanleika.
Guðjón Teitur Sigurðarson
Guðjón stundaði rafmagns- og tölvuverkfræðinám við Háskóla Íslands og Karlsruher Institut der Technologie, þaðan sem hann útskrifaðist með M.Sc. gráðu, á árunum 2010-2016.
Hann starfaði hjá Nox Medical, fyrst við rannsóknir 2013-2014 og svo við hugbúnaðarþróun 2016-2023. Þar kom hann að þróun svefnmælingahugbúnaðar og ýmissa greiningaralgoritma fyrir svefnsjúkdóma. Hann hefur starfað við hugbúnaðarþróun hjá DTE síðan og hefur aðallega lagt stund á merkjavinnslu og mælitækni.