Skammtatölvur: Staðan í dag og framtíðin
Við síðustu aldamót þegar ég hóf doktorsnám voru skammtatölvur einungis til á hugmyndastiginu og aðeins örfáir háskólar í heiminum gátu smíðað í mesta lagi einn eða tvo skammtabita. Í dag er hins vegar hægt að versla með hlutabréf fyrirtækja sem framleiða og selja skammtatölvur. Farið verður stuttlega yfir hugtök skammtafræðinnar og þá þætti hennar sem tengjast reikningum og skammtatölvum. Leitast verður við að hafa framsetninguna aðgengilega og reynt að skauta framhjá tæknilegum smáatriðum. Farið verður í gegnum nokkrar af þeim tæknilausnum sem eru notaðar í skammtatölvum í dag og hvar skammtatölvur gætu mögulega nýst okkur í náinni framtíð.
Sigurður I. Erlingsson
Sigurður I. Erlingsson er prófessor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Hann lauk doktorsprófi í eðlisfræði frá Tækniháskólanum í Delft í Hollandi árið 2003, þar sem hann stundaði kennilegar rannsóknir á eiginleikum skammtabita sem byggja á rafeindaspunum í skammtapunktum. Sigurður starfaði við rannsóknir á eiginleikum rafeinda í örkerfum við Háskólann í Basel í Sviss, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, þar sem hann hefur sinnt rannsóknum og kennslu síðan árið 2008.