Skip to main content

Hönnun hraunvarnargarða fyrir Svartsengi og Grindavík

Gögn | Data    Eldborg    14:20

Í kjölfar jarðhræringa og yfirvofandi eldgoss á Reykjanesi snemma árs 2021, sem ógnað gæti innviðum á Reykjanesi, var Verkís og samstarfsaðilum, Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og verkfræðistofunni Eflu, falið að gera greiningu á innviðum og tillögur að varnaraðgerðum vegna hraunrennslis. Hópurinn hefur starfað af og á, háð aðstæðum hverju sinni, síðan þá og er afraksturinn hraunvarnargarðarnir fyrir Svartsengi og Grindavík auk fleiri aðgerða. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hönnun garðanna en hún byggist m.a. á djúpri þekkingu á ýmsum sviðum, góðum undirbúningi, samvinnu margra aðila, eldri og nýjum gögnum, endalausri gagnasöfnun og góðum hugbúnaði.

Hörn Hrafnsdóttir

Verkís verkfræðistofa
Sérfræðingur í straum- og vatnafræði

Hörn lauk M.Sc. í vatnsauðlindaverkfræði frá Heriot-Watt University, í Edinborg, Skotlandi. Frá aldamótum hefur hún mest unnið verkefni tengd vatnsaflsvirkjunum og þá oft á tíðum þáttum sem tengjast flóðum, aurburði og ísamálum í árfarvegum og við virkjanir. Oft krefjast slík verkefni hermunar í tölvulíkönum. Vegna þeirrar reynslu var hún fengin í innviðahóp Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra í aðdraganda gossins í Fagradalsfjalli. Síðan þá hefur hún þróað aðferðir til að hanna/besta legu og hæð hraunvarnargarða með aðstoð hraunflæðihermana og er hönnuður að görðunum á Reykjanesi. Hörn kennir einnig straumfræði við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands.