Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

 

 

UPPSKRIFT AÐ NOTALEGUM RÁÐSTEFNUDEGI Á NETINU

Allir þekkja það að mæting á ráðstefnu sem fer fram á netinu er krefjandi og ákvað UTmessan að fara á stúfanna og taka saman nokkur ráð til að ráðstefnugestir njóti UTmessunnar til hins fyllsta.

„Þið sjáið okkur en við sjáum ykkur ekki“ 
Það er kannski ekki eins gaman að mæta á ráðstefnu á netinu og að hitta vini og kunningja í tölvu- og tæknigeiranum í persónu en í staðinn gefst tækifæri til að einbeita sér að því að heyra um það sem hæst ber hjá þeim fyrirlesurum sem hafa lagt nótt við dag að undirbúa fagleg og fræðandi erindi. Í ár mæta 25 manns á netið og flest þeirra í beinni útsendingu og verða sendar út 2 þemalínur samtímis og þess á milli geta ráðstefnugestir skoðað sýningarsvæði fyrirtækja og skóla á netinu og vafrað milli þeirra að vild.

Mælum með að þið takið daginn frá til að vera á ráðstefnunni og minnka vinnuáreiti sem mest og brjóta upp það umhverfi og venjur sem flest okkar þekkja á þessum tímum.

Hér eru þau ráð sem fundust á netinu:

1. Bókaðu ráðstefnuna í dagatalið þitt svo engin boði þig á fjarfundi – þú ert jú upptekin. Getur kíkt á vinnupóstinn í hádeginu og séð hvort eitthvað þarfnast nauðsynlegrar athygli.

2. Vertu búin að hugsa fyrir veitingum, aðgangur að góðu kaffi, te eða öðrum drykkjum og svo auðvitað extra gott snarlerí í hádegishléinu. Mátt jafnvel pósta myndum á samfélagsmiðla af veitingum undir #UTmessan @UTmessan

3. Sestu í þægilegan stól, það þarf ekki að sitja á eldhússtólnum og horfa, sófinn eða þægindastóll er mun betri. Það þarf ekki risaskjái til að horfa á útsendingu en mælum með að nota heyrnartól því það heldur athyglinni betur.

4. Standið upp reglulega og teygið úr ykkur, skiptið jafnvel um stað og stól nokkrum sinnum yfir daginn. Og það má alveg vera í kósý fötunum.

5. Engar áhyggjur, það verður hægt að horfa á upptökur á lokuðu svæði í nokkra daga eftir UTmessuna þannig að ef þú dettur út eða missir af fyrirlestri þá getur þú horft á hann seinna.

Hittumst vonandi á UTmessunni í raunheimum á næsta ári og þá verða langar kaffipásur og tími til að vinna upp tengingar í tækniheiminum. 

Þangað til – njóttu fjarráðstefnu UTmessunnar 2021 með sjálfum þér!