Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

 

 

Rakel Sölvadóttir, stofnandi Skema, fékk í dag UT verðlaun Ský 2014

en þetta er í fimmta sinn sem verðlaunin eru afhent.

Í rökstuðningi valnefndar segir að Rakel sé hugsjónamanneskja og frumkvöðull sem sýnt hafi hversu mikilvægt það sé að vera jákvæður og trúa á sjálfan sig og hugmyndir sínar.

„Ný nálgun og hugmyndafræði Rakelar hefur valdið straumhvörfum í fræðslu og áhuga allra aldurshópa á nýtingu upplýsingatækni. Aðferðafræðin sem er studd af rannsóknum á sviði sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði, hefur það markmið að kenna ungu fólki frá 6 ára aldri að forrita. Undirstöðuatriði aðferðafræðinnar byggja á jákvæðni, myndrænni framsetningu og notkun á þrívíðum forritunarumhverfum til að stíga fyrstu skrefin inn í heim tækninnar. Rakel hefur verið sérstaklega góð fyrirmynd fyrir ungar konur sem eru að stíga sín fyrstu skref í tækniheiminum eða stefna að því að afla sér menntunar á sviði tækni og/eða vísinda.“

Rakel stofnaði sprotafyrirtækið Skema árið 2011 og hefur það vaxið á ógnarhraða frá stofnun. Rakel er Bs í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og starfaði meðal annars hjá Mentis, Teris og Tryggingastofnun ríkisins áður en hún stofnaði Skema. Um mitt síðasta ár stofnaði Rakel fyrirtækið reKode Education í Bandaríkjunum, sem byggir á sömu hugmyndafræði og Skema og hefst kennsla þar í apríl næstkomandi.

Þá segir ennfremur í rökstuðningi valnefndar:

„Rakel hefur lagt ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð í störfum sínum og með því að auka þekkingu á tæknitengdum greinum er verið að svara kalli atvinnulífsins og samfélagsins í heild. Forbes valdi Skema sem eitt af tíu sprotafyrirækjum í heiminum sem talin eru líkleg til að ná miklum árangri á næstunni og var Rakel valin í hóp átta frambærilegustu kvennanna á tækniráðstefnunni SXSW í Bandaríkjunum 2013 af Women 2.0. “

Markmið Skema er að uppfæra menntun í takt við tækniþróun og býður fyrirtækið upp á námskeið fyrir börn frá 7 ára aldri í forritun. Jafnframt leggur Skema mikla áherslu á endurmenntun kennara og er því með námskeið ætluð kennurum í notkun upplýsingatækni í kennslu ásamt ráðgjöf við innleiðingu á notkun tækni og kennslu í forritun í almennt skólastarf.

Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem afhenti Rakel verðlaunin á UTmessunni sem nú stendur yfir í Hörpu.

UTmessan er opin almenningi á morgun, laugardag, frá kl. 10:00 – 17:00 en þar gefst fólki kostur á að sjá og upplifa strauma og stefnur og allt það nýjasta í upplýsingatæknigeiranum. Aðgangur er ókeypis og er dagskráin miðuð að öllum aldurshópum.

 

Hvað er UTmessan?

UTmessan er einn stærsti viðburður ársins í tölvugeiranum og hefur verið haldin árlega frá árinu 2011. Tilgangurinn er ekki síst til að sýna almenningi hversu stór og umfangsmikil þessi grein er orðin hér á landi. Á UTmessuna mæta öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins og taka þátt með einum eða öðrum hætti og hvetja þannig fólk til að kynna sér um hvað tölvuiðnaðurinn snýst.  

UTmessan skiptist í tvo daga:

Föstudagur: Ráðstefna og sýning um það helsta sem er að gerast í tölvugeiranum. 

Laugardagur: Þar sýna öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins það sem þau hafa fram að færa á sérstakri tölvusýningu.

 

Fyrir hverja?

Föstudagur: Ráðstefnudagur og sýning ætluð fagfólki um upplýsingatækni svo sem þá sem starfa í eða við tölvumál eða hafa brennandi áhuga á þeim. 

Skrá þarf þátttöku á ráðstefnuna sérstaklega í gegnum þar til gert skráningarform og er þátttökugjaldi stillt í hóf.

Laugardagur: Sýningin er ætluð öllum sem vilja sjá hvað tölvugeirinn hefur upp á að bjóða. Ný tækni, þrautir, kynningar og leikir verða í gangi á sýningarsvæðinu sem hentar öllum aldri. Ýmis verkefni verða kynnt í ráðstefnusölum og hefur hönnunarkeppni HÍ verið hluti af UTmessunni síðustu ár. Skemmtun við allra hæfi fyrir alla.

Aðgangur að sýningardegi UTmessunnar er ókeypis og eru ungir sem aldnir hvattir til að mæta og sjá framtíðina með berum augum.  

Af hverju UTmessan?

UTmessan hefur fest sig í sessi sem einn helsti vettvangur fyrirlestra, umræðna, skoðanaskipta og nýjunga í tölvugeiranum á Íslandi og endurspeglar mikilvægi tölvutækninnar í daglegu lífi okkar allra. Þar er jafnframt að finna umfangsmikið og fjölbreytt sýningarsvæði þar sem öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins sýna framtíðina í tækjum og vörum sem ætíð vekja mikla athygli og er fjölsótt. Á síðustu árum hefur UTmessan í auknum mæli orðið sá staður þar sem íslenskir og erlendir sérfræðingar kynna það helsta í þessum geira og endurspeglar hún þann fjölbreytileika, framþróun og möguleika sem upplýsingatæknin býr yfir.

Nemendum í þessum greinum hefur fjölgað umtalsvert hér á landi á síðustu árum enda hefur UTmessan, sem einn fjölsóttasti atburður sinnar tegundar hér á landi, sýnt fram á hversu fjölbreytt starfssviðið er, atvinnumöguleikar góðir og að það hentar öllum, óháð kyni.